þriðjudagur, september 16, 2008

Enn nóg að gera

Fórum og skiluðum Mulan til síns heima í gærkveldi. Og fyrst við vorum komin svona langt upp í sveit fórum við bara aðeins lengra og skruppum í kaffi til Guðnýjar og Sigga. Græddi sko feitt á þeirri ferð. Guðný hafði prjónað sér ógisslega flott lopavesti. Hvítt með bleiku munsturbekk að ofan. Og hún svo óheppin þessi elska, en ég heppin að það var aðeins of lítið á hana svo hún gaf mér það bara. Jibbýjey. Opalin mín pínu óþekk. Hún er búin að míga þrisvar hér á eldhúsgólfið í kvöld. Þurfum að taka hana rækilega í gegn. Þetta náttla gengur ekki. Yoko hins vegar er þessi líka eðaldama og gerir bara úti. Alveg hætt að pissa og kúka inni. Kannski er Opal óörugg, maður veit það ekki. Búið að vera mikið um breytingar hjá henni þessari elsku. Guðný hringdi svo í dag og dobblaði mig að koma á Geldinganesið góða. Svo núna er ég búin að fara þangað þrjá daga í röð. Fer samt ótrúlega í pirrurnar á mér að sjá helv.... hundaskít þarna út um allt. Gera hundeigendur sér ekki grein fyrir þvi að það er að ganga einhver fjandans lifrabólga sem smitast akkúrat með saur. Og hvað gera hundar þegar þeir sjá svona. Þefa af draslinu, og hvað veit maður hvað læðist upp í nebban á þeim. Argggggg get alveg orðið brjál. Svo nú er ég að hugsa um að finna góðan stað þar sem engin kemur með hunda. Og hana nú. Þarf að leggja hausinn í bleyti og fatta upp á einhverju. Ætla að drífa mig eftir vinnu á morgun með skvísurnar mínar upp á Dýraspítala og láta sprauta þær fyrir þessum fjanda, áður en fjanidinn verður laus. Svo ætlum við Silla, Lonni og ég að drífa okkur í bíó annað kvöld að sjá Mamma Mía. Hlakka bara til. Hef ekki heyrt neitt nema gott um hana og hvað hún sé æði flæði. Vinna í Öflun á fimmtudagskvöldið og tónleikarnir með Clapton á föstudagskvöldið. ÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍHHHAAAAA. Shitt hvað mig hlakkar til. Svo verður brunað norður á Akureyri eldsnemma á laugardagsmorguninn, ætlum að horfa á prinsinn keppa í boltanum. Gistum svo hjá Hlín mágkonu á laugardagsnóttina og heim á sunnudag. Úfff, eitthvað verður maður lúin á mánudaginn. Er alvarlega að hugsa um að nauðga út einum frídegi í vinnunni. Er algjörlega farin að þrá heitar en allt annað sumarfrí. Bara hreinlega verð að komast í frí. Þannig að eins og þið sjáið þá er engin hætta á því að frúnni leiðist. Ó nei.

Gunna 039

Þessi er algjörlega brill. Sjáiði hvað stendur fyrir ofan hausinn á Stínu. hehehe...

Gunna 161

Þarna erum við í sunnudagsbíltúrnum.

Og hér til hliðar er djúsbókin flotta. Ef þið klikkið á myndina getið þið séð hvað stendur á frontinum.

Bara flott. En nú nenni ég ekki að setja inn fleiri myndir það tekur alveg óheyrilega langan tíma, svo ég læt þetta bara gott heita.

Er farin í bólið.......

Gunna 035


Þá er þessi ferðahelgi

liðin og ég ferðaðist bara ekki neitt. Bara heima í tómu borginni. Nóg að gera samt. Vorum í afmæli hjá Jónu svilkonu á laugardagskvöldið. Og þar var boðið upp á roast beef a la Daddi og hamborgarahrygg. Nammi namm. Og að sjálfsögðu var nóg af hvítu, rauðu, bjór og gini. Bara nefna það. Hvað viltu. Og mín vildi hvítt. Og saup kannski heldur of mikið. Var eiginlega orðin soldið slompuð á endanum. Vantar alveg stopparann á mig, þegar kemur að hvítu. Æjæjæjæ.....Heilsan frekar þreytt í gær, verð að segja það. En samt rosalega gaman hjá okkur. Alltaf gaman að vera með þessu fólki, enda alveg dásamlegt fólk í alla staði. Svo var afmæli hjá Alla í gærkveldi. Og þar var boðið upp á grillað lambalæri, grilluð kjúllalæri, og grillað grænmeti. Oh my lord. Ég held að ég sé búin að borða fyrir vikuna. Lét mig hafa það að drekka einn Guinnes eftir miklar áskoranir og svo ekki meir. Maður er bara eiginlega orðin of gamall fyrir svona tvö kvöld í röð. Fór svo áðan og skilaði Múlan. Þannig að nú eru hundarnir bara tveir og það er bara fínt. Það er of mikið að vera með þrjá. Algjörlega. Fórum upp á Geldinganes í gær og í dag að leyfa þeim að hlaupa, voða gott að fara þangað. Ekki svo mikið um fólk þar. Einn og einn hundaeigandi þar á rölti.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Af útilega okkar Gospelsystra. Þá var þetta algjörlega brilliant ferð. Við enduðum á Laugum í Sælingsdal, og fengum alveg geggjað veður. Stoppuðum í Borgarnesi á leiðinni vestur og fengum okkur kaffi og með því. Vorum komnar á áfangastað svo um 6 minnir mig. Svo var bara drifið í því að henda upp tjaldvagninum og Björg henti upp fellihýsinu. Rannveig tjaldaði fyrir dóttluna sína og vinkonu hennar. Löguðum okkur kaffi og sátum úti í góða veðrinu og spjölluðum. Og að sjálfsögðu fengum við okkur líka smá svona yljandi. Nú við Rannveig höfðum keypt osta og tilheyrandi til að gæða sér á á föstudagskvöldinu, og við settum bara upp hlaðborð í tjaldvagninum, kveiktum á kertum og höfðum það ógisslega næs. Villa tók upp gítarinn og nokkrir söngvar teknir. Og ég dreifi þessum æðislegu djúsbókum (söngbækur með handvöldum lögum) sem Silla gerði. Ein á mann. Og þær voru sko ekki ósáttar með það kellurnar mínar. O nei. Nú Björg var með einhver spil sem hún lét okkur draga og svo átti hver og ein að lesa það sem hún dró. Man ekki hvað þessi spil heita, en eru Íslensk og mjög skemmtileg, og þar sem stemmingin var komin út á þennan veg að þá dró ég upp rúnirnar sem ég keypti í Nornabúðinni og lét þær draga. Ein á konu. Og svo lásum við það sem þar stóð. Ég reyndar stal þessari hugmynd frá Önnu Siggu sem er með mér í Voxinum. Hún gerði þetta í raddpartýi hjá okkur í fyrra og var bara svona skemmtilegt að ég mátti til með að gera eins. Og það besta við þetta var það að ég dró sömu rún núna og ég dró hjá Önnu Siggu. Og það var engin eins. How wierd is that. Undecided Svo var bara haldið áfram að tjatta og syngja fram undir fjögur og þá fannst okkur orðið tímabært að koma sér í koju. Og þá vildi nú ekki betur til en svo að dóttlan hennar Rannveigar sá könguló í tjaldinu fína og rak upp þetta líka skaðræðisöskur. HJÁLP. Svo ekki var mikið sofið í því tjaldi þessa helgi. Þær stöllur komu með dýnurnar sína og sváfu á gólfinu í vagninum hjá okkur. Og þá vorum við sex í vagninum. Oh mæ oh mæ. Og lofleysið og hitinn var mig lifandi að drepa. Var alvarlega farin að hugleiða það að rífa fj..... hurðina af rennilásum. En allt bjargaðist þetta og við erum allar á lífi. Á laugardeginum ákváðum við bara að taka því rólega. Sátum úti í sólinni og kjöftuðum af okkur botninn. Fórum samt í smá fjallgöngu og fengum að sjálfsögðu kennslustund í grasafræðum hjá Rannveigu. Alltaf gaman að spá í svona hluti. Gangan var fín, nema þegar kom að niðurleið. Ég fór langleiðina niður á rassinum. Þetta var eitthvað svo hrikalega bratt. Og það er helmingi verra að fara niður en upp.En áður en við fórum í gönguna lét ég þær hafa eitthvað að hugsa um. Sko. Rannveig segir við mig hér á einum skipulagsfundi vorum. Gunnhildur, þú ættir nú að semja nokkra svona fyrriparta og svo láta þær semja botna. Og bara hlæ að þessu og held nú ekki. En hún sáði fræinu og ég bara varð að gera þetta. Svo ég setti saman 6 fyrriparta og prentaði þá út í þríriti og svo drógu þær. Svo þegar fór að líða að kvöldmat fóru þær að tala um hvað ætti að grilla og svona. Og spurði bara, hver sagði að við ætluðum að grilla. Ha. Oh nei. Mín tók sig bara til og eldaði hér heima á fimmtudagskvöldinu þetta líka rosa góða hvítlaukslæri og grillaði kjúllabringur marineraðar í Teryaky sósu. Mmmmmmm.... Og þær áttu bara ekki til orð. Svo fér aðstöðuleyfi í fellihýsinu og bjó til gourmae sveppasósu. Kartöflusalat í skál og fersk salat með jarðaberjum í aðra skál, og svo bara skál elskurnar. Eftir matinn dásamlega þó ég segi sjálf frá, var farið í vísurnar. Og mikið rosalega var þetta skemmtilegt. Og heyra hvernig sömu fyrripartarnir fengu ólíka botna. Hver og ein las sínar vísur og ég tók það allt upp á video. Og það er bara skemmtilegt skal ég segja ykkur. Mikið hlegið og mikið gaman. Fórum svo í smá actionari og svo bara sungið meira. Og mín tók meir að segja í gítarinn. Hef bara ekki spilað svona í mörg ár. Verð að fara að koma mér í þjálfun aftur. Ekki að gera sig að vera svona illt í puttunum daginn eftir smá spil. Fórum í ból upp úr tvö þreyttar og sælar. Á sunnudeginum tókum við svo allt niður, gengum frá og fórum í bíltúr. Skildum vagninn bara eftir og sóttu hann síðar. Keyrðum Skarðsströndina, skoðuðum ótrúlega krúttlega kirkju og svo var maður bara komin heim um níu á sunnudagskvöldið. Ótrúlega skemmtileg ferð og okkur er allar farið að hlakka til að fara í Þakgil næsta sumar. Ekki spurning.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Opal og Yoko

Hér eru þær stöllur. Á betri mynd í myndavélinni en nennti ekki að sækja þær núna. Þarf að fara að sofa í hausinn á mér svo ég vakni í fyrramálið. Þarf að druslast út með hundana áður en ég fer að vinna það sem spúsinn er á morgunvakt og löngu farinn þegar ég fer á lappir. Búið að vera algjör lúxus því hann er búinn að vera á kvöldvöktum og bara farið út með hundana þegar hann vaknar. En því er ekki fyrir að fara á morgun.

Adios darlings.......


Engin ummæli: