Stelst til að henda þessu inn hér. Það hlýtur að vera í lagi. Ekkert sko smá glöð með þennan dóm.Enda voru tónleikarnir algjörlega dásamlegir.
Skemmtilegir tónleikar John Speight samdi Stabat mater. John Speight: Stabat mater. Vox feminae söng ásamt Sif Tulinius (fiðlu), Hildigunni Halldórsdóttur (fiðlu), Þórunni Ósk Marinósdóttur (víólu), Bryndísi Höllu Gylfadóttur (selló) og Hávarði Tryggvasyni (kontrabassa). Einsöngur: Sigríður Aðalsteinsdóttir. John Speight: Stabat mater. Vox feminae söng ásamt Sif Tulinius (fiðlu), Hildigunni Halldórsdóttur (fiðlu), Þórunni Ósk Marinósdóttur (víólu), Bryndísi Höllu Gylfadóttur (selló) og Hávarði Tryggvasyni (kontrabassa). Einsöngur: Sigríður Aðalsteinsdóttir. Einleikur: Daði Kolbeinsson (englahorn). Stjórnendur: John Speight, Margrét Pálmadóttir. Miðvikudagur 12. mars. ÉG var að keyra niður í bæ að morgni til þegar ég heyrði syfjað útvarpsfólk reyna að segja eitthvað gáfulegt um fyrirhugaða tónleika Vox feminae í Kristskirkju á miðvikudagskvöldið. Ekki voru þau viss um tímasetninguna en komust þó fljótlega að því að tónleikarnir væru klukkan 20.30. Og svo tilkynntu þau að flytja ætti Stabat mater á tónleikunum, en það væri hið merkilegasta tónverk. Hvergi kom fram nafn tónskáldsins, líkt og aðeins eitt tónverk væri til sem héti Stabat mater. Kannski áttu þau við Vivaldi, sem vissulega samdi frægt tónverk með þessu nafni. Eða Palestrina, Haydn, Gounod, Penderecki, Poulenc, Szymanowski, Verdi, Alessandro Scarlatti, Domenico Scarlatti, Arvo Pärt eða Verdi. Meira að segja franska svartmetalbandið Anorexia Nervosa hefur samið Stabat mater. Nei, tónskáldið að þessu sinni var John Speight og hann stjórnaði sjálfur flutningnum sem auk kórsins var í höndum lítillar strengjasveitar, Sigríðar Aðalsteinsdóttur messósópran og Daða Kolbeinssonar, er lék á svonefnt englahorn, eða enskt horn, en það er einskonar óbó. Hvað þýðir annars Stabat mater? Það er stytting á Stabat mater dolorosa, upphafslínu í frægu ljóði frá 13. öld. Matthías Jochumsson þýddi upphafserindið svo: „Stóð við krossinn mærin mæra / mændi á soninn hjartakæra / Grátin sá, hvar Guðs son hékk.“ Í ljóðinu er hugleidd þjáning Maríu þegar sonur hennar, Jesús er krossfestur. Eins og nærri má geta er andrúmsloftið tregafullt og John Speight hefur náð ágætlega að fanga stemningu textans. Dapurlegir einleikskaflar englahornsins, sem Daði Kolbeinsson útfærði af listfengi, römmuðu inn síendurteknar, hnígandi, nánast tárvotar strengjahendingar; hjartnæman, einstaklega fallegan einsöng og tilfinningaþrunginn kórsöng. Mismunandi þættir verksins voru í góðu jafnvægi og úrvinnsla tónskáldsins á helstu meginhugmyndum var afslöppuð, sannfærandi án þess að fara út í öfgar, en þannig var merkingu textans ávallt haldið á lofti af smekkvísi. Óhætt er að fullyrða að Stabat mater eftir Speight sé vel unnið og vandað tónverk. Mér láðist að taka tímann á tónsmíðinni (enda hallærislegt að glápa á klukkuna þegar maður á hálfpartinn að vera með lokuð augun í öðrum heimi) en ég giska á að tónlistarflutningurinn hafi tekið um hálftíma. Það er auðvitað ekki nóg fyrir heila tónleika og því flutti kórinn og aðrir tónlistarmenn, að þessu sinni undir stjórn Margrétar Pálmadóttur, lög á borð við Á föstudaginn langa, Nú legg ég augun aftur og annað sem tengja má við páskana. Eins og í verki Speights var hástemmdur söngur kórsins unaðslegur áheyrnar og því er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið skemmtilegir tónleikar.
Jónas Sen
Já svo mörg voru þau orð...Annars allt gott að frétta héðan úr mekkunni. Feðgarnir komnir heim frá Liverpool. Og það var víst hrikalega gaman hjá þeim. Skilst á Erni að stefnan sé sett á það að fara aftur eftir þrjú ár. Með saman hópi. Svo þá er bara að safna. Tók mér frí í vinnunni í dag, þannig að nú þarf ég bara að vinna tvo daga og svo komin í 5 daga frí. Jibbíjajey..... Ekki meir að sinni. þið eigið það bara inni. Sko, nú er ég bara talandi skáld.
Góða nótt eskurnar og sofið rótt og dreymið fallega drauma.....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli